22 March, 2014

Ávaxta- og grænmetisneysla getur lengt lífið

Í stórri rannsókn sem var framkvæmd í Svíþjóð kom í ljós að einstaklingar sem borða minna en fimm skammta af ávöxtum og grænmeti á dag deyja fyrr en þeir sem ná þessum fimm skömmtum. Fólk sem sagðist aldrei borða ávexti og grænmeti dó að meðaltali þremur árum áður en þau sem borða nóg af eplum, gulrótum og tómötum. Þau sem borðuðu einn skammt á dag lifðu að meðaltali 19 mánuðum lengur en þau sem borðuðu enga ávexti né grænmeti, og þau sem borðuðu þrjá skammta á dag lifðu að meðaltali 32 mánuðum lengur. Það skal samt tekið fram að rannsakendur sögðust ekki geta sannað að ávextir og grænmeti lengi lífið þar sem það gætu verið aðrir þættir sem aðskildu þessa hópa. Þó var leiðrétt fyrir kyni, reykingum, hreyfingu, áfengisneyslu og þyngd. Það tóku 71000 manns þátt í rannsókninni á aldrinum 45-83 ára í 13 ár. 
Hérna er hægt að lesa meira um rannsóknina.

Á Íslandi og fleiri löndum er mælt með að borða 5 skammta af ávöxtum og grænmeti á dag en fáir ná þeim ráðleggingum samt sem áður. Það er ansi líklegt að þeir sem eru það duglegir að borða svona vel af ávöxtum og grænmeti séu einnig að borða meira af hollum mat sem gæti líka verið að hafa þessi áhrif.