02 August, 2013

Að borða hádegismat seint á daginn getur verið fitandi

Í apríl síðastliðnum birtust niðurstöður rannsóknar í tímaritinu International Journal of Obesity þar sem skoðaður var munur á þyngdartapi eftir því hvenær hádegismatur var borðaður á daginn. Rannsóknin stóð yfir í 20 vikur og 420 einstaklingar tóku þátt. Þátttakendum var skipt í tvo hópa, þeir sem borðuðu hádegismat fyrir kl. 15:00 og þeir sem borðuðu hádegismat kl. 15:00 eða seinna á daginn. Skoðuð var heildar orkuinntaka, orkueyðsla, svengdarhormón (leptin og ghrelin) og lengd svefnstíma. Ekki var munur á þessum þáttum á milli hópanna tveggja.

Niðurstöðurnar sýndu að einstaklingarnir sem borðuðu hádegismat fyrr léttust 30% meira en þeir sem borðuðu hádegismat seinna á daginn. Þau sem voru í seinni hópnum borðuðu yfirleitt orkuminni morgunmat og slepptu morgunmat oftar en þau sem borðuðu hádegismat fyrr. Seinni hópurinn mældist einnig með lægri insúlín næmni sem getur aukið líkur á sykursýki. Niðustöðurnar gefa því til kynna að tímasetning hádegismatar getur skipt máli og ef hann er borðaður í seinna lagi, þá getur það hægt á þyngdartapi þrátt fyrir magn orkuinntöku yfir daginn og skiptingu orkuefna.

Það hefði verið áhugavert að sjá líka mun á þeim sem borða hádegismat til dæmis kl. 13 eða 14 þar sem það eru örugglega ekki mjög margir í raunveruleikanum sem borða hádegismat kl. 15 eða seinna. En þessi rannsókn gefur samt til kynna að mjög líklega hefur þá áhrif á þyngdartap að borða staðgóðan morgunmat og hádegismat í kringum hádegið.