04 November, 2012

Tveir skammtar af feitum fisk á viku geta minnkað líkur á heilablóðfalli

Eins og kemur fram í ráðleggingum á mataræði Íslendinga, þá er mælt með að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku. Ástæðurnar bakvið þessar ráðleggingar eru góð áhrif fiskneyslu á hjartasjúkdóma sem kemur aðallega til vegna þess að fiskur getur verið ríkur af omega-3 fitusýrum.

Nýlega voru teknar saman niðurstöður úr 38 rannsóknum sem náðu yfir 800.000 einstaklinga í 15 löndum. Þá var skoðað hversu mikil fiskneysla gæti minnkað líkur á heilablóðfalli. Niðurstöðurnar sýndu fram á að þeir einstaklingar sem borða tvo til fjóra skammta af feitum fisk í viku hafa 6% lægri áhættu á að fá heilablóðfall miðað við þá sem borða einn skammt í viku eða aldrei, og þeir sem borða fimm eða fleiri skammta af feitum fisk í viku hafa 12% minni líkur á að fá heilablóðfall.

Greinahöfundar ályktuðu að ástæðurnar á bakvið þessar niðurstöður gætu verið að fiskur gefur mikla næringu í vítamínum og lífsnauðsynlegum amínósýrum. Aukin fiskneysla hefur einnig þau áhrif að neysla á öðrum mat minnkar eins og á rauðu kjöti sem getur aukið líkur á hjartasjúkdómum. Einnig er mataræðið hjá þeim sem borða mikið af fisk oft hollara og inniheldur jafnvel enn meira af mat sem getur hjálpað til með minnkandi líkur á heilablóðfalli. 

Það kom í ljós að hvítur fiskur hafði ekki þessi góðu áhrif eins og feitur fiskur, en það var útskýrt með því að hvíti fiskurinn er oft matreiddur öðruvísi. Hann er til dæmis oftar steiktur upp úr smjöri eða jafnvel djúpsteiktur.

Hérna er hægt að lesa meira um þessa samantekt á rannsóknum.

Þannig að það borgar sig að borða líka feitan fisk, ekki bara þennan hvíta. Einnig er vert að hafa í huga eldunaraðferðir, eins og að steikja ekki fiskinn alltaf upp úr smjöri. Hægt er til dæmis að ofnbaka eða sjóða fisk og nota alls kyns krydd, olíur og annað til að bragðbæta. Fiskur sem flokkast sem feitur fiskur er til dæmis lax, bleikja, makríll, rækjur, rauðmagi, loðna, lúða og síld.