21 April, 2012

Neysla á rauðu og unnu kjöti sýnir aukna dánartíðni


Rautt kjöt
Kjöt eins og lamba-, svína- og nautakjöt er algengur matur á sumum íslenskum heimilum og jafnvel pylsur, bjúgur og kjötfars. Allt flokkast þetta undir að vera rautt kjöt og þetta þrennt síðastnefnda flokkast sem unnar kjötvörur.Aukin dánar- og sjúkdómatíðni
Nú hefur neysla á rauðum kjötvörum, þó sérstaklega þeim sem eru unnar, verið tengd við aukna dánartíðni aðallega vegna hjarta- og æðasjúkdóma og krabbameins samkvæmt nýrri rannsókn við Harvard háskólann. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna líka að þegar borðaður er annar próteingjafi en rautt kjöt eins og til dæmis fiskur, fuglakjöt, hnetur, fræ, mjólkurvörur með lítilli fitu og heilkornavörur þá minnkar dánartíðnin.Neysla rauðs kjöts hefur áður verið tengd við sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdóma, heilablóðfall og sumar tegundir krabbameina. Þannig að þessi rannsókn styður þær niðurstöður enn frekar og er með fyrstu rannsóknum sem sýnir bein tengsl við dánartíðni, ekki bara sjúkdómana.Samkvæmt þessari nýju rannsókn þá hefur dagleg neysla á óunnu rauðu kjöti þau áhrif að dánarlíkur hækka um 13% en dagleg neysla á unnu rauðu kjöti eins og til dæmis pylsum og bjúgum eykur dánarlíkur um 20%. Þá er miðað við að skammtastærðin sé um það bil ein pylsa á dag eða tvær sneiðar af beikoni. Meiri tengsl fundust við dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma en vegna krabbameins.Kjötneysla Íslendinga

Íslendingar borða að meðaltali 22 g á dag af unnum kjötvörum, karlar borða 28 g á dag og konur 15 g. Þó hefur neysla þessara vara minnkað talsvert frá árinu 2002.  En til að setja niðurstöðurnar í samhengi þá vegur ein pylsa 50 grömm og tvær sneiðar af beikoni 20 g.Veljum frekar fisk og fuglakjöt

Þannig að þessi rannsókn ásamt fleirum sýnir okkur að það margborgar sig að velja frekar fisk, fuglakjöt eða annan hollan próteingjafa fremur en rauða kjötið og sérstaklega frekar en unnu kjötvörurnar þegar við veljum okkur mat.

Heimildir

Tengt efni